Greinasafn fyrir flokkinn: NeóBlek

Tilurð örstuttrar mannkynssögu

Ég fékk þann heiður að vera með í afmælisblaði Bleks, sem að kom út núna um síðustu helgi. Myndasagan fékk nafnið Mannkynssagan í örstuttumáli og er í raun tvær blaðsíður en þar sem að ég gat ekki klárað báðar síðurnar fyrir skilafrest ákvað ég að búa til styttri útgáfu fyrir blaðið. Myndasagan er hluti af myndasögu þeirri sem ég er að vinna að Þegar tíminn staldraði við og mun báðar síðunnar birtast þar. Hér er fyrsta skissan af báðum síðunum:

Hugmyndin að myndasögunni á rætur sínar að rekja til ársins 2000 sem myndskreyting við ljóð sem ég kallaði Mannkynssagan. Myndin átti að vera ein opna í bókinni sem væri lesin/skoðuð frá vinstri til hægri og byrjaði á tímum frummanna og færðist í gegnum söguna eftir því sem að lesið yrði til hægri þar til að komið færi fram í nútímann. Eins áttu að vera vísað í þekktir atburðir/styrjaldir í mannkynssögunni. Neðst lengst til hægri átti svo að vera leggsteinn þar sem að ljóðið átti að vera ristað á.

Þar sem að ljóðabókin var lögð á hilluna var eina sem ég hafði teiknað var skissa af leggsteininum. Þegar ég fór að púsla saman bókinni Þegar tíminn staldraði við, fannst mér að þetta ljóð og grunn hugmyndin myndi passa og það kom mjög fljótlega sú hugmynd að láta nemendur lesa uppúr sögubók í sögutíma atburði/stríð á ýmsum tímum í mannkynssögunni. Eins og sjá má á skissunni af síðunni hér að ofan kom snemma sú hugmynd að láta nemendurna vera í klæðnaði/tísku þess tíma, sem atburðurinn átti að gerast. Í stað leggsteinsins var svo kominn íslensk orðabók, þar sem ljóðið var hluti af skilgreiningunni á orðinu Mannkynssaga. Lengi vel áttu myndirnar í römmunum af atburðunum að vera teiknaðar í sama stíl og annað í bókinni en ákvað svo að það væri betri hugmnd að teikna þær í stíl þess tímabils sem að atburðirnir gerðust. Þetta reyndist vera mjög mikið teiknivinna að minni hálfu og tókst mér því ekki klára söguna fyrir skiladaginn í afmælisblað NeoBleks. Ég ákvað því að taka þá ramma sem að voru kláraðir og búa til einnar síðu myndasögu, sem er einskonar forsmekk á það sem mun koma í bókinni.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa sögu mína ættu að kaupa afmælisblað NeoBleks, auk myndasögu minnar þá eru myndasögur eftir marga af þekktustu myndasöguhöfundum á Íslandi í dag og má nefna Hugleik Dagsson, Inga Jensson, Kjartan Arnórsson, Bjarna Hinriksson, Jean Pozok og Simma og Lilju. Í heildina 164 blaðsíður!

Hér eru svo skissur af konum mannkynssögunnar en endanlega útgáfu má sjá í eldri færslu.

Íslenska myndasögutímaritið Blek 20 ára!

Fyrir 20 árum var ég að vinna á grafíkdeildinni á DV sem sumarafleysingarmaður. Yfirmaður grafíkdeildarinnar var Ólafur Guðlaugsson. Einn daginn var hann með á skjá sínum næstum svarta forsíðu með rauðu, svo ég fór að spyrja hann hvað þetta væri því ólíklegt var að þetta myndi birtast í DV. Það kom í ljós að þetta var forsíðan á nýju íslensku myndasögublaði Hazarblaðið Blek, sem hann ásamt 10 öðrum stóðu í að gefa út.

Hann sýndi mér síðan myndasöguna sem að hann átti í blaðinu, Hamingjan. Einnar síðu myndasaga um leitina að hamingjunni. Einkar góð myndasaga, með á einnu síðu á gaman saman hátt sýndi hamingju í nútímanum.

Ég fylgdist aðeins með útgáfu blaðsins úr fjarska og keypti mér blaðið daginn sem að það kom út. Í blaðinu voru 11 íslenskar myndasögur eftir níu myndasöguhöfunda: Sigurður Ingi Jensson, Þorsteinn S. Guðjónsson, Jón Ingiberg Jónsteinsson, Erpur Þórólfur Eyvindsson, Bjarki Kaikumo, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Ólafur Gunnar Guðlaugsson, Pétur Yngvi Yamagata og Ómar Örn Hauksson. Blaðið var í frekar stóru broti miðað við amerísk hasarblöð, ca. A4 og prentað á flottan pappír. Hið veglegasta blað.

Sögurnar féllu misvel að mínum smekk en þetta blað hafði samt töluverð áhrif á mig og fletti ég og las blaðið nokkuð oft þetta sumar. Fram að þessum tíma hafði ég teiknað örfáar stuttar myndasögur sem aðeins mjög þröngur vinahópur hafði séð en hafði svo sem hugmyndir um myndasögur. Þetta fyrsta blað af Blek gaf mér þá von að kannski gæti ég gert einhverjar af þeim hugmyndum mínum um myndasögu að veruleika og birt þær í íslensku myndasögu blaði! (Það var þó ekki fyrr en árið 2010 sem að fyrsta myndasagan mín birtist í Bleki).

Frá og með útgáfu annars tölublað var reynt að gera blaðið ódýrara í útgáfu og lækka verðið og var broti blaðsins breytt í týpískt amerískt hasarblaða stærð og prentað á ódýrari pappír. Blaðið kom út undir nafninu Blek til ársins 2005 og var útgáfan óregluleg eða þegar efni var nóg í eitt blað. Jean Posocco, sem hafði verið ein driffjöðurinn í útgáfu bleks frá og með öðru tölublaði, reyndi að blása nýju lífi í Blek með því að gefa það aftur út í stóru broti og reynt að gefa blaðið út einu sinni á ári. Árið 2010 reyndi Jean að blása enn meira lífi í blaðið svo og íslenskan myndasögumarkað. Blaðið kom út þrisvar til fjórum sinnum út á ári og innihélt þýddar franskar myndasögur með stökum íslenskum myndasögum.

NeóBlek 20 áraBlek heldur uppá 20 ára afmælið með útgáfu á 164 blaðsíðna blaði í veglegu broti, þar sem að flestir af þeim sem hafa teiknað fyrir blaðið eiga sögur og sýningu í Borgarbókasafninu Grófinni Tryggvagötu þar sem að farið er yfir feril blaðsins. Er sýningin bæði fróðleg og áhugaverð og ekki síður skemmtileg. Sýningin stendur yfir til 25. september og ætti fólk endilega að nýta sér tækifærið og skoða íslenska menningu eins og hún gerist best. Kannski rekist þið á myndasögu eftir mig á sýningunni, en allavega nóg af góðum myndasögum eftir þekktustu myndasöguhöfunda Íslands síðustu tvo áratugi.